föstudagur, 11. janúar 2008

Köttur nútímans og verndari bankakerlinga.



Það er í raun og veru fyndið að þetta fólk hérna fyrir neðan mig haldi að það sé stærra og merkilegara en ég. Ég get hoppað hæð mína tífalda, klórað, reyndar ekki klipið, en bitið fast og hlaupið hraðar en þessir durgar. Hvar væru þau líka án mín? Fyrir stuttu heyrði ég í nokkrum nýbökuðum mömmum á röltinu hérna niður götuna, týpískar bankakerlingar nýkomnar á fertugsaldurinn, talandi um hversu öruggt hverfið væri þrátt fyrir að þau væru svona miðsvæðis.
Ef þær bara vissu hver það væri sem passaði upp á að öll vitleysan nái ekki inn undir pilsin þeirra. Það er spurning hvort að ég yrði ennþá þessi litli sæti kisi sem fýlaði að láta klóra sér aðeins og klappa ef þær vissu hvað ég geri?
Það hefur svosem ýmislegt komið fyrir hérna á horninu. Sjoppan á horninu rænd, krakkaskítar að slást og smá fyllerí en í öll skiptin var ég fjarverandi vegna meiðsla í sambandi við aðrar hetjulegar dáðir. Auðvitað ætti ég að fá mér aðstoðarmann en það er fjandi erfitt að finna einhvern sem ég get treyst fyrir heiminum.
Stundum er þetta djobb samt helvíti leiðinlegt. Ég sit hérna uppi og horfi á kollana labba framhjá án þess að fólk taki eftir mér dögum saman. Það kemur samt fyrir að ég hoppi niður og fylgist aðeins með með þar en í raun og veru finnst mér neðri hlutinn af manneskjunni ekki jafn skemmtilegur og sá efri. Ég gæti auðveldlega talið upp fyrir ykkur tískur seinustu 10 ára eða svo, sérstaklega hinar og þessar bylgjur í hárbransanum, en ég sé ekki alveg pointið í því að greiða sér, mun betra að sleikja.

Engin ummæli: